Háskóli þriðja æviskeiðsins opinn kynningarfundur

Birna frá U3A Reykjavík kemur og kynnir Háskóla Þriðja æviskeiðsins

Opinn Kynningarfundur mánudag 15. maí kl. 16:00 í Tjarnaborg. Birna frá U3A Reykjavík kemur og kynnir Háskóla Þriðja æviskeiðsins.

U3A eða Háskóli þriðja æviskeiðsins hefur það markmið að stuðla að því að félagsmenn hafi aðgang að fjölbreytilegu framboði af fræðslu án þess að um formlega skólagöngu sé að ræða. Einnig vilja samtökin stuðla að virkni og aukinni vitund félagsmanna og samfélagsins um mikilvægi þriðja æviskeiðsins, tækifærin sem í því felast og mannauðinn sem í því býr. Fræðslan byggir að mestu á jafningjafræðslu þar sem félagar samtakanna deila með sér þekkingu, reynslu og færni. Tilgangi sínum hyggjast samtökin ná m.a. með því að skipuleggja og sjá um fyrirlestra, ferðir og heimsóknir og að efla kynni við aðra innan og utan U3A hreyfingarinnar hvar sem er í heiminum. Ennfremur eru félagar hvattir til að stofna hópa um viðfangsefni sem þeir velja sjálfir og taka þátt í verkefnum sem tengjast málefnum þriðja æviskeiðsins.

Fjölmennar kynslóðir eru nú að nálgast eftirlaunaaldur og eru líklegar til að breyta ásýnd hans. Lífslíkur þessara hópa eru meiri en kynslóðanna á undan, menntunarstig hærra og heilsa verður væntanlega betri en hjá fyrri kynslóðum. Þarfir þessara hópa fyrir virkni og farsæla öldrun verða aðrar og ekki síst verður leikni til notkunar á nýrri tækni í samskiptum mun mikilvægari en áður.