Fimmtudaginn 12. október var önnur vinnustofa um samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu haldin í Tjarnaborg. Fyrri vinnustofan var haldin í júní síðastliðinn.
Vinnustofustjórar voru Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri Hátinds 60+ og Perla Björk Egilsdóttir, framkvæmdarstjóri Veltek.
Um það bil 30 gestir sóttu vinnustofuna. Gestir voru frá öllum áttum, meðal annars fá Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Þingeyjarsveit, HSN, Heimahjúkrun Akureyri, Háskólanum á Akureyri og einnig frá Háskóla Íslands. Einnig voru fundargestir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar sem kynntu sína Velferðartæknismiðju fyrir aðra fundargesti. Sérfræðingur í opinberri nýsköpun frá Ríkiskaupum fór einnig með erindi um innkaupaleiðir fyrir nýsköpun. Að lokum fór dósent við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands með erindi.
Meðal gesta voru einnig tveir háskólanemar, einn BA-nemandi í félagsráðgjöf sem er að skrifa ritgerð um Hátind 60+ verkefnið og annar meistaranemi í opinberri stjórnsýslu sem er nú í starfsnámi hjá Fjallabyggð. Það er virkilega ánægjulegt að sjá áhuga frá háskólanemum um starfsemi okkar.
Áhugaverðar og uppbyggilegar umræður voru milli gesta og árangursmikil vinna átti sér stað í öllum vinnuhópum. Nú er unnið úr niðurstöðum vinnustofunnar og verða þær kynntar síðar.