Virkni á Akureyri – kynning á verkefninu Virk efri ár

Virkni á Akureyri – kynning á verkefninu Virk efri ár       

Föstudaginn 21. mars sl. fóru starfsmenn sveitarfélagsins í heimsókn á Akureyri þar sem kynnt var verkefnið Virk efri ár. Héðinn Svarfdal Björnsson, verkefnastjóri lýðheilsumála og virkra efri ára, tók vel á móti starfsmönnum Fjallabyggðar í Íþróttahöllinni og deildi hvernig verkefnið hefur þróast og vaxið á liðnum árum og hvernig fjölbreyttri dagskrá er haldið úti allt árið um kring.

Það var ekki annað að sjá en að mikil orka og gleði einkenni starfið á Akureyri. Íbúar 60+ taka virkan þátt og það er greinilegt að Virk efri ár hefur skapað lifandi samfélag þar sem hreyfing, félagsskapur og þátttaka fara hönd í hönd.

Á dagskránni eru meðal annars gönguferðir, línudans, Ringó, badminton og ýmis önnur skemmtileg og heilsueflandi verkefni eitthvað fyrir alla. Það sem er sérstaklega hvetjandi er að þátttakendur taka oft virkan þátt í skipulagningu og utanumhaldi um einstakar greinar. Þeir sem hafa áhuga geta því ekki aðeins mætt og tekið þátt, heldur jafnvel boðið fram krafta sína við að leiða eða styðja við ákveðna þætti.

Þessi heimsókn veitti mikinn innblástur og sýnir svart á hvítu að með réttum stuðningi og góðu utanumhaldi er hægt að skapa vettvang þar sem fólk á efri árum getur blómstrað, tekið þátt og átt virkan hlut í eigin lífsstíl.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga, hvort sem það er að taka þátt eða jafnvel leiða hópa að hafa samband, koma með hugmyndir og kynna sér tækifærin í eigin sveitarfélagi. Hver veit nema við verðum næst með eins kraftmikið verkefni og Akureyringar.