Tæknilæsi fyrir 60+ í Menntaskólanum á Tröllaskaga
Menntaskólinn á Tröllaskaga stendur fyrir spennandi verkefni sem miðar að því að auka tæknilæsi meðal íbúa Fjallabyggðar sem eru 60 ára og eldri. Verkefnið býður upp á einstaklingsmiðaða kennslu þar sem nemendur við menntaskólann sjá um leiðsögn undir handleiðslu kennara skólans.
Þetta er einstakt tækifæri fyrir fólk á besta aldri til að öðlast betri skilning á notkun snjallsíma, tölvu eða spjaldtölvu. Kennslan fer fram á persónulegum nótum þar sem áhersla er lögð á að mæta þörfum og áhuga hvers og eins. Þannig geta þátttakendur lært á eigin hraða og fengið aðstoð við þau tæki og forrit sem þeir vilja nota í daglegu lífi. Markmið verkefnisins er að styrkja tæknifærni eldra fólks og auka sjálfstæði þeirra í notkun stafrænna lausna. Með því að efla tækniþekkingu skapast tækifæri til að auðvelda samskipti við fjölskyldu og vini, nýta sér þjónustu á netinu og taka þátt í samfélaginu á nýjan hátt.
Nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga fá einnig mikið út úr verkefninu. Þeir öðlast dýrmæta reynslu af kennslu og samskiptum við fólk á ólíkum aldri og fá tækifæri til að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Þetta samspil kynslóða er stór þáttur í því að styrkja tengsl í Fjallabyggð og skapa jákvæða upplifun fyrir alla þátttakendur.
Verkefnið er frábært dæmi um nýsköpun í menntun þar sem skólar og samfélög vinna saman að því að bæta lífsgæði íbúa. Það er von okkar að verkefnið muni stuðla að auknu sjálfstrausti þátttakenda í notkun tækninnar og stuðla að betra aðgengi að upplýsingum og þjónustu.
Nú er tækifærið til að taka þátt í þessu spennandi verkefni og efla tæknilæsi með stuðningi nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga. Öllum íbúum Fjallabyggðar 60 ára og eldri er boðið að nýta sér þetta frábæra úrræði.
Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband á netfangið: hannasigga@hatindur.is